laugardagur, nóvember 30, 2002

Kláraði loks þetta uppkast, uppkast er réttnefni í tvennum skilingi vegna þess að það mætti halda að ég hafi ælt á pappír og skilað þessu, það var svo lélegt. Ætli ég byrji ekki á þýðingar verkefni mínu á morgun, sé fram á ýmiskonar ömurlegheit á næstunni. En það er ekki svo langt í það að þetta verði búið og mikið verður nú gaman þá. Róbert var að tala um að við ættum að skila þessum dagbókum þann 13. næstkomandi, en ég er að hugsa um að halda þessu áfram. Þetta kemur ákveðni reglu á líf mitt, og myndi ég segja ég hafi verulega lært á því að halda þessa dagbók. Það að gera sér grein fyrir vandamálum sínum og þurfa svo að skrifa þau niður er ákaflega lærdómsríkt og ýtir á mann að gera eitthvað í þeim. Ég birti náttúrulega ekki öll mín vandamál hér, þá myndu einhverjir halda mig bilaðan á einhvernhátt, en ég reyni samt að vera heiðarlegur við sjálfan mig og það sem er að plaga mig fer hérna inn (sem betur fer er það ekki mikið). Ef ég ætti að safna saman öllum mínum vandamálum saman í stutta málsgrein þá myndi sú málsgrein hljóða svona: Leti, allavega hvað varðar námið, tek samt á flestum öðrum hlutum í kringum mig; Umframeyðsla á takmarkaðri innkomu minni, það að hafa áhyggjur af fjármálum sínum tekur líka svo mikla orku frá manni sem maður gæti annars notað í eitthvað uppbyggilegt, maður verður bara að hætta þessari drykkju og svo reykingunum líka; Reykingar, heilsufarslegar og fjárhagslegar ástæður; Ætli það mætti ekki segja að þetta væri einhvers konar blanda af temmilegri heimsku (sem ég geri mér nú stundum grein fyrir, guði sé lof) og aðeins of mikilli leti. Það er allavega hægt að nenna að hugsa öðruhverju í stað þess að vera að dóla sér eitthvað á netinu. Svo segir Eva mér að ég sé fullágengur við hana, ég verð að reyna að hemja tilfinningar mínar betur, taka skynsamlegar á þeim allavega. Ég held samt að ég geti með fullri vissu að ég virkilega njóti þess að vera ég um þessar mundir, líf mitt er alveg ljómandi gott þakka þér fyrir. Maður ætti kannski að stoppa aðeins og njóta þess stutta stund áður en maður heldur áfram. Ég kveð í bili því svefns er krafist.

|

fimmtudagur, nóvember 28, 2002

Mikið er nú gaman að hlusta á Nick Cave. Þar á ferð er sko djöfuls snillingur. Það ríkir mikil eftirvænting í húsi mínu eftir komu þessa manns til klakans. Svo er ég að lesa Self-Reliance og mikið er það nú góð lesning. Maður er endurnærður í hvert sinn sem maður les hana. Hún gefur þér einhverja von um að þitt líf sé sérstakt og að eftirsóknavert sé að gera sitt besta til þess að lifa því. Svo náttlega gleymir maður því jafnharðan, og dettur í einhverja leti og tóman aumingjaskap og kemur engu í verk. En það þýðir ekki til lengdar svo að maður verður að gera eitthvað í þessum málum. Berja sig áfram með járnvilja, það getur ekki verið svo erfitt, það er fullt af fólki sem gerir það og það er engu betra en ég. Þá er kannski kominn tími til þess að halda áfram við Walden og stefni ég á að klára þennan pakka í kvöld.

|

miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Skeggsöfnun gengur ágætlega og ritgerðarvinna bara þokkalega vel, sendi þetta ekki samt fyrr en á morgun til Róberts. Þá verður hafist handa við að lesa og þýða eina grein eftir Don og skrifa svo ritgerð um það. Ég sé svona nokkurn veginn fyrir endann á þessu öllu saman og hef ekki miklar áhyggjur, verð bara að halda mig við efnið. Sem getur reyndar verið soldið erfitt stundum, bæði vegna leti og svo utanaðkomandi áhrifa. En með mikilli einbeitingu og trausti á sjálfan mig get ég allt. Eða því sem næst. Komst líka að því að kreditkortinu var synjað vegna símavillu og ég er ekkert fátækasti maður í heimi, ansi fátækur samt. En ég verð bara sparsamru og sjálfum mér nægur og ætti að sækja í dýrar skemmtanir á borð við tjútt og bíó. Nú verður sko bara unnið og skemmt sér við það.

|

þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Er byrjaður að safna skeggi, sem er soldið fyndið því ég er varla með meira en meðal hýjung. En þetta er eitthvað sem er kominn tími til að gera og mér gæti ekki verið meira sama um hvað öðrum finnst um hýjunginn minn, ég má líka alveg kalla þetta skegg. Annars er allt gott að frétta af ritgerðarmálum. Ég er búinn með heilar 4 bls og fleiri á leiðinni, er spökulera í að senda Róberti uppkast í kvöld. Spurning hvað ég verð kominn langt kannski 2 - 3 síður í viðbót. Svo er ég opinberlega fátækasti maður í heimi í dag, þegar kreditkortinu var synjað þegar ég var að kaupa mjólk áðan. Aldeilis frábært það, ætli ég drekk ekki kaffi og borði loft þar til að mánaðarmótum. Auglýsi hér með eftir heimboðum í mat út þessa vikuna. Bið vel að lifa og vona að mér endist líf þar til næst!!! hejhej

|

sunnudagur, nóvember 24, 2002

Ætli maður verði ekki að svíkja gefin loforð því ég er að fara að hjálpa familíunni að tæma íbúðina hennar ömmu. En ég held að það sé bara hressandi að koma sér út aðeins, hreinsar hugann að öllum viðbjóðnum sem hefur safnast þar saman síðustu daga. Ritgerðir koma ekkert þegar maður byrjar á þeim, heldur koma þær bara þegar þeim sýnist. Ég vona að hún líti við í dag svo þetta gangi eitthvað, því annars verð ég í dýpri skít heldur en hugsanir mínar eru. Walden er samt að rúla, helvíti gaman af kallinum, ætli ég reyni ekki að klára hana í dag og svo líka self - reliance eftir Emerson. Svo þegar þeim lestri er lokið þá verður ritaðar einar 3 blaðsíður í þessari blessaðri ritgerð. Áætlanagerðir eru gerðar til þess að standast ekki þannig að ég hef svo sem engar áhyggjur að þessari. En allavega þá er best að hefjast handa, kannski að best að snyrta hýjunginn minn aðeins áður en ég fer út, hann er orðinn óttalega rytjungslegur.

|

laugardagur, nóvember 23, 2002

Góðan daginn, gott tjútt í gær. Langt síðan að það hefur gerst, almenn ölvun náttlega viðloðandi. Metall Magnússon sló auðvitað öll met í drykkju án þess að deyja og Þröstur dó. Spurning hvor er siguvegari kvöldsins, fer kannski eftir því hvernig þú horfir á málið. Er að hefja ritgerðarskrif og ætla ég ekki að fara út fyrr en á mánudag, en þá ætti ég að verða í góðum ritgerðamálum, þe ef ég er duglegur að halda mig við efnið. Mikið er gott að loka sig svona af heilu dagana, og svo ætla ég ekkert að hafa fyrir rakstri næstu dagana heldur. Kannski líka vegna þess að ég tími ekki að blæða í ný rakvélablöð og tími ekki að blæða með hinu gamla. Ég ætla að hætta þessu og hefja öllu gáfulegri skrif.

|

föstudagur, nóvember 22, 2002

Vei var að koma aftur í borgina, las alveg slatta í Walden fyrir norðan og mikið er það nú ánægjuleg lesning, gleymdi auðvitað að taka með mér Jamesarann en les það bara seinna. Var að spá í að prjóna mér húfu fyrir veturinn, kannski ég fái hana metna til prófs í heimspeki, ef hún virðist gáfuleg þe. Annars hef ég lítið að segja, ætli ég skrifi ekki eitthvað á morgun og þá vonandi fullur og vitlaus, bið vel að lifa þar til og hvet alla til þess að gera eitthvað skemmtilegt um helgina, td. að prjóna sér húfu eða detta í það.

|

fimmtudagur, nóvember 14, 2002

Mental note to self: Ekki raka sig með eldgömlu rakvélablaði, það er ekki gott!!!

|

Jamm nú er þessum fyrirlestri um það bil að ljúka og aðeins á eftir að fínpússa hana og er mér líka öllum lokið og ég nenni ekki meir. Hef samt ekkert farið í þessa ritgerð, en ég nenni ekki að hafa áhyggjur að því. Veiveivei, ég er að fara til ak. á morgun að hitta hana evu mína og er það voða gaman. Þannig að ég mun örugglega ekki skrifa hér aftur fyrr en eftir helgi. Er nú samt að vonast til þess að klára þessa walden um helgina þó að maður verði nú örugglega upptekinn við annað. Ætli ég fari ekki að hætta þessu er að fara út að borða með Silju, Jóu og Billa og er það því kjörið tækifæri að raka sig svona áður en það gerist. Auf wiedersehen.

|

þriðjudagur, nóvember 12, 2002

einn maður smíðar hlutinn hann notar hann ekki, annar maður kaupir hlutinn hann notar hann ekki, þriðji maðurinn notar hlutinn en hann veit ekki af því?

|

Jæja nú er fyrirlesturinn kominn vel af stað og hugarflug mitt að ná hámarki, einnig er kominn staðfesting á því að ritgerðarefnið mitt er ekki svo vitlaust og er ég nú á fullu við að undirbúa hana. Fattaði líka rétt í þessu lausn á gátu sem hefur verið að plaga mig undanfarnar vikur, og fylgir því gríðarleg hamingja. Vert er að minna á það að svo stöddu að ég hlýt að vera snillingur því svona gátur eru ekki á færi margra manna. Kannski ég hendi henni inn hér rétt á eftir svo að lesendur mínir fái nú að spreyta sig á henni líkt og ég. Kveð í bili, Walden bíður í öllum sínum mikilfengleik.

|

mánudagur, nóvember 11, 2002

Ég hef hreinsað huga minn af fjárhagslegum áhyggjum og það er vel, kannski að maður geti farið út að ganga núna samkvæmt skilgreiningum Thoreau´s. Ætli ég leyfi ekki frekar hugsun minni að fara út að ganga heldur en að gera það sjálfur. Kannski loksins núna getur hún skoðað sig um í villtri náttúru hugmynda óþvinguð undan oki daglegs amsturs. Ó hvað það er vel að vera frjáls. Annars held ég að ég sé bara að bulla því ég á langt í land með að vera jafn frjáls maður og Thoreau. Ætli það sé ekki eitthvað svona ævistarf. En einhverstaðar verður maður að byrja og því ekki að byrja núna. Hlakka til að skrifa hér næst og vona að einhver sé að lesa.

P.S. ef einhver vill commenta eða tjá sig við mig minni ég á að fólk getur sent mér ímeil hingað: baldvie@hi.is . Ég kann ekki að gera þetta þannig að þú getur klikkað beint á ímeilið, þannig að þið notið bara afrita - líma aðferðina.

|

laugardagur, nóvember 09, 2002

Þetta er allt að koma er að byrja á fyrirlestri í dag og er búinn að lesa megnið af þessari bók. ætli ritgerðar skrif hefjist ekki á morgun, fór reyndar seint á fætur og var lengi að koma mér af stað. Svo hef ég líka tekið ákvörðun, eftir frábæran tíma hjá Róberti í gær, þá hef ég ákveðið að frelsa huga minn frá oki pólítískrar umræðu og hætta að hlusta á þetta bull. Ég hef ákveðið að gerast ópólitískur með öllu. Mun samt nýta mér þann rétt að kjósa.

Fór líka í sameiginlegt partí nokkra deilda í gær og djöfull var það leiðinlegt, fólk sem drekkur er í fyrsta lagi leiðinlegt og þá sérstaklega ef það kemur úr deildum á borð við verkfræði og hjúkrun. Þannig að það var beilað með braga og haldið heim til hans að drekka martini og horfa sleeper eftir woody allen. Snilld. Bið vel að lifa þar til næst og voni að þið bætið ykkur líkt og ég er að reyna að gera.

|

fimmtudagur, nóvember 07, 2002

Það eina gagn sem ég hef haft af þessari blessuðu vefbók er að ég geri mér sífellt betur grein fyrir því hvað ég er í raun latur maður. Kannski er kominn tími til þess að taka næsta skref og vinna úr þessum nýfengnu upplýsingum. Og nú hefjast endurbætur. Læt ykkur vita hvernig gengur.

|

Já halló, ég er geysilega ánægður með dagverk mitt, ætlaði á fætur um tíu og fara að læra en ég var eitthvað svo slappur eftir tjúttið hjá honum Þorsteini þannig að ég svaf til rúmlega tvö, sem var nú samt bara þokkalega gott, fór þá í tíma og dundaði mér svo hér heima þar til ég fór í bíó. Ég skil ekki hvernig fólk getur verið í vinnu og gert allt það sem það þarf að gera þar að auki, ég er að spá í að fá mér aldrei vinnu. Reyna bara að láta bæturnar duga eða eitthvað. Kannski maður finni einhverja löngun til þess að skrifa eitthvað eða þá að lesa bara. ætla nú bara að hafa þetta stutt núna, ætla að fara að sofa og mæta svo hress og kátur í tíma á morgun, ég vona að mér takist það. Vert er að minnast á það að Red dragon er bara hin fínasta ræma og gæði hennar minna um margt á silence of the lambs, sem var að mig minnir bara stórgóð. Vá ég sagði minni þrisvar í síðustu setningu, sem verður nú bara að teljast til afreka. P.S. ekki taka mikið mark á því sem ég var að tuða í gær, því ölvunar gætir í þeim texta.

|

miðvikudagur, nóvember 06, 2002

Auðvitað horfi ég allt heila djöfuls klabbið og lærði því sem ekki neitt. Reyndar tókst mér að mæta í tíma í morgun í fornöldinni og lærði vonandi eitthvað á því. Svo var fyrsti fyrirlestur af fjórum með hinum mikla heimspekingi Donaldi Davidson í dag og var það alveg hreint prýðilegur tími sem við áttum þar, svo fljótlega á eftir þennan tíma var haldið í kokteil boð heima hjá meistara Þorsteini Gylfasyni og drukkið töluvert mikið af rauðvíni. Reyndar var þetta ekkert gaman fyrr en Don (eins og ég er farinn að kalla hann) fór heim í háttinn því allir voru svona agalega hræddir um að tala af sér í návist hans, nema þá kannski Þorsteinn. En eftir það komust umræður á verulegt skrið og voru þá einna helst rædd málefni stríðsrekstrar USA manna og svo kaffistofumálefni heimspekinema í aðalbyggingu HÍ. Svo fékk maður að heyra ýmislegt varðandi sögu okkar guðsblessuðu heimspekideildar og hvernig hún varð til í þeirri mynd sem hún er í dag. Í alla staði var þetta afar ánægjuleg kvöldstund sem við málstofumenn áttum heima hjá okkar virðulega Þorsteini. Á morgun á víst allt að gerast í mínum lærdómi og á að hefja nám snemma og læra mikið. Ætli ég endi ekki þennan stutta pistli á því að það þurfi endilega ekki að vera eitthvað gáfulegt sem þú segir, því það er ekkert mikið gáfulegra sem náungi þinn er að tuða. Því ættir þú að láta þér lynda að hlusta á kjaftæðið í öllum hinum vitleysingunum. Kannski er það málið varðandi þessa heimspeki og lífið og allt það, að það er ekkert endilega betra sem aðrir eru að tuða, heldur getur þú allt eins haft eitthvað til málanna að leggja. Þó það sé ekki nema á einhverri aumri bloggsíðu.

|

mánudagur, nóvember 04, 2002

Var að koma heim í dag, og hef nám umsvifalaust ætli ég horfti samt ekki á frasier fyrst og svo restina af sjónvarpsdagskránni og leiki mér svo í tölvunni fram undir morgun. Ég er svo latur að það er ekki hægt að gera betur. Það er oft talað um að hver og einn einstaklingur sé sérstakur og hafi einhvern eiginleika sem hann skari framúr flestum öðrum mönnum. Þessi eiginleiki minn er líkast til leti, eða þá að láta tíma líða hratt án þess þó að gera eitthvað af viti. Þyrfti að fá mér svona engil og púka á öxlina og taka svo púkann af lífi.

Á morgun hefst svo gleðin þegar sá mikli heimspekingur Donald Davidson heimsækir okkur og heldur nokkra fyrirlestra á næstu dögum, það líka partí hjá Þorsteini á morgun með Donaldi og það verður væntalega gríðarleg stemmning. Ég skrifa um þessa reynslu mína af þessu viðburði annað kvöld, örugglega vel í glasi ef ég þekki þessa heimspekinga rétt.

|

föstudagur, nóvember 01, 2002

Ég er ekki enn kominn að niðurstöðu því ég virðist skipta um skoðun í hvert skipti sem ég skipti um skoðun. Vona að þetta gerist um helgina þó að það verði ekki mikið lært. Hef reyndar lítið hugsað í dag eins og ég hélt að ég ætlaði að gera, leið eiginlega hjá í einhverju móki en las þó í james og er henni alveg að ljúka. Ætli ég skrifi nokkuð fyrr en eftir helgi hér í þessa Bíflíu mína eins og er talað um hana á öðrum vefsíðum. Bið vel að lifa þangað til og fleygið ykkur inn um gleðinnar dyr inn í óvissuna. Trú er allt sem þarf.

|